Pólýhúðun

Hvað er pólýhúðun?

Pólýhúðun (oft kallað duftlökkun eða dufthúðun) er þar til gerð þurrlökkun þar sem notað er þurrt duft. Meginmunur blautlökkunar og pólýhúðunar er að ekki er krafist leysiefna til að halda bindi- og fylliefnum í vökvaformi. Húðunin er sett á með rafhleðslu og svo bökuð til leyfa henni að renna saman og mynda „húð“. Duftið er oftast pólýester eða epoxy fjölliður sem bakast við hita (135-240°C).  Pólýhúðun er oftast notuð til að fá harðgerðari húð en venjuleg blautlökkun eins og fyrir heimilistæki, álprófíla og bíla- og hjólahluti.

Kostir pólýhúðunar

Pólýhúðun hefur ýmsa kosti fram yfir venjulega blautlökkun:
1. Pólýhúðun gefur frá sér, nánast engin, rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC).
2. Með pólýhúðun er hægt að ná þykkari húð en blautlökkun án þess að hún renni til eða dropi.
3. Það duft sem fer umfram er hægt að endurnýta, sem stuðlar að nánast 100% nýtingu efnis.
4. Við pólýhúðun skapast minni hættulegur úrgangur en í blautlökkun.
5. Mikið magn séráferða og sérlita er til sem ómögulegt er að líkja eftir með blautlökkun.

Tegundir pólýhúðunar

Pólýhúðun getur verið úr margskonar efnum má þar ma. nefna pólýester, pólýúretan, pólýester-epoxy (hybrid), epoxy og akrýl.

Verkferlið

Í grunninn skiptist pólýhúðun í þrenn ferli:
1. Undirbúning (þvottur og/eða sandblástur)
2. Húðun
3. Bökun

Undirbúningur:
Undirbúningur þess sem á að húða er eitt af mikilvægustu skrefunum, en þar þarf að fjarlægja hvers kyns olíu, fitu, tjöru, feiti, sílkon, suðulús, málmsvarf og allt annað sem gæti haft áhrif á gæði húðunarinnar. Hvert verk hefur í raun sitt eigið þvottaferli en þau efni sem notuð eru, eru alltaf valin með tilliti til efnisgerðar, stærðar, framtíðarstaðsetningar og efnisgæða þess sem á húða.
Einnig ef fjarlægja þarf gamla húð hvort sem það er málning, lakk, krómhúð, gúmmí eða pólýhúðun, þá er nauðsynlegt að sandblása en þá er litlum ögnum af „sandi“ blásið með loftþrýstingi (breytilegur eftir ástandi gömlu húðuninnar og efnisgerðar þess sem blásið er) á efnið sem losar burtu öll óhreinindi og gamla húð og skilur eftir sig beran málm tilbúinn til húðunar.

Húðun:
Húðun fer fram eftir að stykkið hefur verið þurrkað eða hitað (fer eftir efnisgerð hvort það er húða heitt eða kalt). Þá er duftinu úðað undir loftþrýstingi með þar til gerðri byssu sem um leið hleður duftið í 50-100.000 volt, og vegna þess að stykkið er jarðtengt þá veldur spennumunurinn því að duftið leitar á stykkið og hleðst upp utan á því (duftið leitar m.a.s. á bakhliðar og inn í rör og kverkar)

Bökun:
Eftir að stykkið hefur verið húðað, er það bakað í ákveðinn tíma (fer eftir efnisgerð stykkis og dufts) í 135-240°C og við baksturinn bindast fjölliður duftsins saman og við efnið og mynda harða húð.